Frakkar og Þjóðverjar hafa hvatt til „nýstárlegra“ leiða til að stórauka hernaðarsamvinnu á vettvangi Evrópusambandsins (ESB). Utanríkis- og varnarmálaráðherrar beggja ríkja lýsa þessu yfir í erindi til Catherine Ashton, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB.
Erindið felur í sér afstöðu Frakka og Þjóðverja til samstarfs ESB-ríkjanna í varnarmálum en fyrirhugað er að þau verði sérstakt umfjöllunarefni á varnarmálafundi sambandsins í desember.
Í bréfinu er lýst skyldum Evrópuríkjanna til að tryggja frið og öryggi „í breytilegri veröld með nýjum valdamiðjum og vaxandi ógn við öryggi“. Segja höfundar að vegna takmarkaðra fjármuna verði ESB-ríkin að leita frumlegra leiða til samstarfs og samnýtingar til að fá sem mest fyrir fjármunina takmörkuðu og til að styrkja frekar ESB og sameiginlega öryggis- og varnarstefnu sambandsins.
Nefna ráðherrarnir ýmsar leiðir til að deila herafla sínum til að tryggja möguleika Evrópu til aðgerða. Þar á meðal aukið flutningasamstarf, samnýtingu tankflugvéla, samstarf læknasveita og samstarf á sviði njósnamála, meðal annars með fjarstýrðum mannlausum flugvélum.