200 milljónum varið í viðgerð á höll Vilhjálms

Vilhjálmur og Katrín með Georg prins af Cambridge.
Vilhjálmur og Katrín með Georg prins af Cambridge. BEN STANSALL

Georg prins af Cambridge kemur til með að alast upp með foreldrum sínum í Kensington-höll í London. Verið er að gera við höllina og er áætlaður kostnaður tæplega 200 milljónir króna. Kensington-höll á sér merkilega sögu.

Framtíðarheimili prinsins er í svokallaðri 1A-álmu Kensington-hallar. Í þessum hluta hallarinnar eru 21 herbergi. Vilhjálmur og Katrín búa nú á landareign hallarinnar en flytja inn í 1A-álmuna þegar framkvæmdum lýkur. Margrét prinsessa, ömmusystir Vilhjálms, bjó áður í þessum hluta hallarinnar. 

Vilhjálmur er ekki ókunnugur Kensington-höll, en hann ólst þar upp að hluta til. Eftir að Karl og Díana skildu bjó Díana áfram í höllinni og synir hennar dvöldu oft hjá henni.

Astma-sjúkur kóngur lét byggja höllina

Kensington-höll hefur verið aðsetur konunga frá því í lok 17. aldar. Þegar María II. og Vilhjálmur af Óraníu tóku við völdum eftir „dýrlegu byltinguna“ svokölluðu árið 1688 settust þau að í Whitehall-höll. Vilhjálmur var astma-sjúkur og kvartaði undan röku lofti í miðborg London. Hann ákvað því að kaupa Nottingham House, sem var í eigu vinar hans í þorpinu Kensington fyrir utan borgina. Vilhjálmur fékk Christopher Wren, frægasta arkitekt Breta, til að gera tillögur um breytingar, en Wren ákvað í samráði við konunginn að byggja nýja höll við hlið þeirrar byggingar sem fyrir var.

Konungshjónin fluttu í höllina í árslok 1689, en framkvæmdum var þá ekki að fullu lokið. María bjó hins vegar ekki lengi í höllinni því hún dó úr bólusótt fimm árum síðar, aðeins 32 ára gömul. Vilhjálmur varð heldur ekki ellidauður. Hann féll af hestbaki og viðbeinsbrotnaði árið 1702. Hann lést í Kensington-höll hálfum mánuði síðar. Sagt er að hestur hans hafi stigið ofan í moldvörpuholu og dottið. Jakobítar, andstæðingar Vilhjálms, skáluðu lengi vel fyrir moldvörpunni sem gróf holuna.

Fæðingarstaður Viktoríu drottningar

Eftirmenn Vilhjálms III., Anna, Georg I. og Georg II. bjuggu í Kensington-höll, en Georg III. kaus að búa í Buckingham-höll. Játvarður, fjórði sonur konungsins, fékk hins vegar að búa í Kensington-höll. Dóttir hans, Viktoría, fæddist í höllinni 1819, en hún varð drottning 18 ára gömul og ríkti í næstum 64 ár.

Eftir að Viktoría varð drottning flutti hún úr höllinni og mest alla 19. öld var Kensington-höll í niðurníðslu. Til tals kom að rífa höllina. Viktoría sagði að svo lengi sem hún lifði kæmi ekki til greina að rífa fæðingarstað hennar. 1897 samþykkti þingið af veita fjármagni í að gera við höllina og opna hana til sýningar fyrir almenning. Framkvæmdum lauk fyrir 80 ára afmæli drottningarinnar árið 1898.

Díana bjó með sonunum í höllinni

Lovísa, dóttir Viktoríu drottningar, bjó í Kensington til dauðadags árið 1939. Kensington-höll varð fyrir miklum skemmdum í seinni heimsstyrjöldinni þegar sprengjur féllu á höllina. Eftir að Lovísa lést flutti Margrét, systir Elísabetar drottningar, í höllina ásamt manni sínum Lord Snowdon. Þau hjón tóku virkan þátt í samkvæmislífinu og þar voru leikarar og fleiri listamenn tíðir gestir. Á tímum Margrétar voru veislur í Kensington bæði frægar og eftirsóttar.

Næstu frægu íbúar í höllinni voru Karl og Díana. Þau bjuggu þar með sonum sínum og Díana bjó áfram í höllinni eftir að hún skildi við Karl. Athyglin beindist að Kensington þegar Díana lést í bílslysi 1997, en þúsundir gesta komu að höllinni til að votta Díönu virðingu sína. Blómahaf myndaðist við hlið hallarinnar.

Nú eru Vilhjálmur og Katrín að koma sér fyrir í hluta Kensington-hallar ásamt Georgi litla. Það verður heimili þeirra næstu árin.

Fleiri úr konungsfjölskyldunni hafa íbúðir til afnota í Kensington. Þar á meðal er prinsinn og prinsessan af Kent, hertoginn og hertogaynjan af Kent og hertoginn og hertogaynjan af Gloucester, sem er dönsk að ætt og uppruna.

Sjá nánar um konunga sem báru nafnið Georg.

Meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar hafa búið í Kensington-höll frá því í …
Meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar hafa búið í Kensington-höll frá því í lok 17. aldar. MIGUEL MEDINA
Vilhjálmur prins bjó með foreldrum sínum í Kensington-höll. Eftir að …
Vilhjálmur prins bjó með foreldrum sínum í Kensington-höll. Eftir að þau skildu bjó hann þar með Díönu, móður sinni.
Blómahafið fyrir framan Kensington-höll eftir að Díana prinsessa lést.
Blómahafið fyrir framan Kensington-höll eftir að Díana prinsessa lést.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert