Tengist flótta fanga í Pakistan

Talibanar náðu að frelsa 252 fanga úr fangelsi í Pakistan …
Talibanar náðu að frelsa 252 fanga úr fangelsi í Pakistan í lok síðasta mánaðar. STRINGER

Sú viðvörun til bandarískra borgara sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sendi frá sér í gær tengist því að fjöldi al Qaeda-liða hafa sloppið úr fangelsum síðustu daga. Þetta fullyrðir Sky-fréttastofan.

Interpol sendi í dag út tilkynningu til aðildarríkja sinna um að aðstoða við leit af föngum sem hafa sloppið úr fangelsum í Írak, Pakistan og Líbíu á síðustu dögum og vikum.

Í viðvörun utanríkisráðuneytisins segir að aukin hætta sé á að liðsmenn al-Qaeda geri hryðjuverkaárás sem beinist m.a. að bandaríkum borgurum. Hættan sé mest í Mið-Austurlöndum, N-Afríku og á Arabíuskaga. Hættan á árás sé viðfarandi út ágústmánuð. Ráðuneytið biður bandaríska ríkisborgara á þessum svæðum að sýna aðgát.

Búið er að taka ákvörðun um að loka tímabundið 21 sendiráði Bandaríkjanna á þessum svæðum. Frakkar, Bretar og Þjóðverjar hafa líka lokað nokkrum sendiráðum í Araba-löndum.

Vígamenn úr hópi talibana náðu að frelsa 252 fanga í árás sem þeir gerðu á fangelsi í norðvesturhluta Pakistans í lok júlí. Hundruð talibana og annarra skæruliða voru í fangelsinu. Skynews segir að frelsun fanganna tengist viðvöruninni sem send var út í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert