Einn maður lést og 10 særðust eftir að maður ók viljandi á hóp fólks í Los Angeles í nótt. Maðurinn stal bíl og reyndi ítrekað að keyra á gangandi vegfarendur.
Vitni að atburðunum segjast aldrei hafa upplifað annað eins. Þetta hafi verið eins og atriði úr bíómynd. Eftir að maðurinn tók kyrrstæðan bíl traustataki ók hann á miklum hraða á vegfarendur. Hann byrjaði á að aka á fólk sem sat fyrir utan kaffihús. Hann ók síðan áfram og reyndi ítrekað að aka á fólk.
Einn maður er látinn og tveir alvarlega særðir, m.a. lítið barn. Átta aðrir eru slasaðir, en þó ekki alvarlega.
Maðurinn ók á endanum á brott og hóf lögreglan umfangsmikla leit að honum. Maður gaf sig síðan fram við lögreglu í nótt og sagðist hafa ekið bílnum. Lögreglan er að yfirheyra manninn, að því er fram kemur í losangeles.cbslocal.com.