Stuðningsmenn Silvios Berlusconis, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hafa fjölmennt fyrir utan glæsihýsi hans í Rómarborg til að mótmæla því að hann hafi verið dæmdur í fangelsi fyrir skattsvik.
Sumir stuðningsmanna hans vildu að hann myndi þvinga fram kosningar til að binda enda á það vandræðaástand sem hefur skapast innan samsteypustjórnarinnar, þ.e. á milli hægriflokks Berlusconis og vinstrimanna.
Berlusconi segir að núverandi ríkisstjórn megi hvergi hvika og að halda áfram með að koma efnahagsstefnu stjórnvalda til framkvæmda.
Hæstiréttur Ítalíu staðfesti í síðustu viku fangelsisdóm sem Berlusconi hlaut í undirrétti í október sl.
Í október á hinn 76 ára gamli Berlusconi að hefja afplánun í eitt ár. Samkvæmt ítölskum lögum þurfa þeir sem eru orðnir 75 ára og eldri sjaldnast að afplána innan fangelsismúra og að öllum líkindum þarf hann að sitja í stofufangelsi eða sinna samfélagsþjónustu.