Kyrkislangan sem drap drengina aflífuð

Afrísk pýton-kyrkislanga líkt og sú sem drap drengina tvo í …
Afrísk pýton-kyrkislanga líkt og sú sem drap drengina tvo í Kanada. AFP

Fjögurra metra löng afrísk pýton-kyrkislanga, sem drap tvo kanadíska drengi í svefni, hefur verið aflífuð. Þetta tilkynnti lögreglan í Kanada í dag. Slangan var flutt ólöglega inn í landið og yfirvöld skoða nú hvað varð til þess að hún réðst á börnin. 

Eins og mbl.is sagði frá í gær kyrkti slangan tvo litla drengi, bræðurna Noah og Connor Barthe sem voru 4 og 6 ára gamlir. Kyrkislangan slapp úr glerbúri í gegnum loftræstibúnað. Hún skreið meðfram veggjum inn í herbergi þar sem drengirnir lágu sofandi, en þeir voru í pössun hjá vinafólki.

Íbúðin er fyrir ofan gæludýraverslun og sögðu fyrstu fréttir að slangan hefði sloppið úr versluninni, en lögreglan segir nú að slöngunni hafi verið haldið inni í íbúðinni þar sem börnin voru. Hún vó 45 kíló.

Fjölskyldan vill syrgja í friði

Kanadamenn eru furðu lostnir og harmi slegnir og hefur málið vakið mikla athygli. Spurningar hafa kviknað um lög og reglur um dýrahald á hættulegum skepnum og vilja sumir meina að regluverkinu sé verulega áfátt.

Fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar að kyrkislangan sé ólögleg í ríkinu New Brunswick, þar sem henni var haldið. Haft er eftir yfirlögreglumanninum Alain Tremblay að málið sé rannsakað sem glæpur í ljósi þess að tvö börn létu lífið.

Fjölskyldan hefur óskað eftir friði frá fjölmiðlum til að syrgja börnin. Lík þeirra verða krufin til að skera úr um dánarorsök.

News Republic hefur eftir dýrafræðingnum Bry Loyst að afrískar pýtonslöngur líti almennt ekki á mannfólk sem fæðu og að kyrkislangan hafi líklega orðið ringluð þegar hún rakst á börnin. Hugsanlega hafi verið um varnarviðbrögð að ræða.

Þótt þetta mál sé sérstaklega óhugnanlegt er það ekki einstakt því kyrkislönguárásum hefur fjölgað í Norður-Ameríku, ekki síst í Flórída. Má það rekja til þess þegar framandi slöngum sem haldið hefur verið sem gæludýrum er sleppt lausum í náttúrunni. Stjórnvöld í Flórída áætla að um 150.000 Búrma-kyrkislöngur gangi lausar í ríkinu og var gert átak til að uppræta þær fyrr á þessu ári.

Snákur kyrkti tvö börn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert