Hælisleitendum haldið frá almenningsstöðum

Svisslendingar vilja aðskilja hælisleitendur frá almenningi og meina þeim að …
Svisslendingar vilja aðskilja hælisleitendur frá almenningi og meina þeim að sækja opinbera staði eins og kirkjur, sundlaugar og bókasöfn. AFP

Sundlaugar, bókasöfn og leikvellir eru meðal opinberra staða sem hælisleitendum í sumum svissneskjum bæjum verður meina að sækja. Markmiðið er að koma í veg fyrir árekstra milli þeirra og heimafólks. Mannréttindasamtök segja stefnuna bera keim af kynþáttahatri. BBC segir frá.

Gangi áætlanirnar eftir verður hælisleitendum haldið í sérstökum búðum og þannig aðskildir frá almenningi. Yfirleitt er um fyrrverandi herstöðvar að ræða sem verða endurnýttar með þessum hætti, sú fyrsta hefur þegar verið opnuð í bænum Bremgarten. Þar verður hælisleitendum m.a. meinað að sækja guðsþjónustur í kirkjum.

Svipaðar áætlanir eru uppi í bænum Menzingen. Bæjarstjórinn Roman Staub segir að hælisleitendur verði bannað að sækja „viðkvæm svæði“ eins og nágrenni grunnskóla. „Það eru sannarlega viðkvæm svæði, því þar geta hælisleitendur komist í snertingu við skólabörn, ungar stúlkur og unga drengi,“ hefur BBC eftir Staub.

Í júní síðast liðnum var samþykkt með þjóðaratkvæðagreiðslu að herða innflytjendalöggjöf landsins verulega. Til Sviss er að jafnaði um 1 hælisleitandi á móti hverjum 332 íbúum. Það er yfir Evrópumeðaltalinu, sem er 1 hælisleitandi á hverja 625 íbúa.

Um þessar mundir bíða um 48.000 hælisleitendur afgreiðslu sinna mála í Sviss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert