Lögreglan á afrísku eyjunni Zanzibar heitir nú verðlaunafé sem nemur rúmum 700 þúsund krónum fyrir upplýsingar sem leitt gætu til handtöku árásarmannanna sem skvettu sýru á tvær breskar stúlkur, 18 ára gamlar, í gær.
Stúlkurnar, þær Kirstie Trup og Katie Gee, voru á Zanzibar til að sinna sjálfboðaliðastarfi. Sýran skvettist yfir andlit þeirra, bringu og hendur. Þær eru ekki lífshættulega slasaðar en húð þeirra er brunnin. Þeim var flogið í skyndi heim aftur til Bretlands í nótt og voru lagðar inn á sjúkrahús í London í dag.
BBC hefur eftir fjölskyldum stúlknanna að þeim sé mjög brugðið og í áfalli yfir árásinni, sem hafi verið algjörlega óviðbúin og tilefnislaus. Ráðist var á stúlkurnar í hinu forna Grjótaþorpi (e. Stone Town) sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna á Zanzibar.
Lögreglustjóri Zanzibar segir að þetta sé í fyrsta sinn sem ráðist sé á ferðamenn með þessum hætti og að lögreglan geti ekki ímyndað sér ástæðuna.
Forseti Zanzibar, Ali Mohammed Shein, fordæmdi árásina í gær og sagði hana leiða til uppnáms og ringulreiðar í samfélaginu.
„Þetta var ósiðleg árás, ekki í anda íslam,“ sagði forsetinn. „Það er mikil grimmd að kasta sýru á ungar, saklausar stúlkur.“