Obama heitir bót og betrun

Barack Obama Bandaríkjaforseti boðaði til blaðamannafundar í Hvíta húsinu í kvöld þar sem hann hét því að gerðar yrðu „viðeigandi endurbætur“ á umdeildum eftirlitskerfum bandarískra yfirvalda. Hann sagði að slegnir yrðu frekari varnaglar gegn misnotkun á eftirlitinu, sem sumir kalla persónunjósnir.

Obama hefur varið starfsemi Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) síðan Edward Snowden lak upplýsingum sem afhjúpuðu víðfeðmt eftirlit með almennum borgurum í gegnum farsíma og net.

Á blaðamannafundinum í kvöld sagði forsetinn að Bandaríkin „geti og verði að vera gagnsærri“ í hlerunum sínum. „Í ljósi þess sem við þekkjum í sögunni um misnotkun stjórnvalda þá er eðlilegt að við spyrjum okkur spurninga um eftirlitið, sérstaklega í ljósi þess að tæknin mótar líf okkar í sífellt meiri mæli,“ sagði forsetinn.

„Það er ekki nóg að ég, sem forseti, treysti þessum áætlunum. Bandarískur almenningur verður að hafa traust á þeim líka.“

Obama setti fram áætlun í fjórum skrefum um umbætur til að tryggja traust Bandaríkjamanna á eftirliti NSA.

  1. Hann hét því að vinna með þinginu að því að endurskoða ættjarðarlögin (Patriot Act) s.k. sem sett voru í forsetatíð George W. Bush og heimila gagnasöfnun með símhlerunum.
  2. Hann skipaði embættismenn í dómskerfinu til að færa fram lagaleg rök fyrir gagnasöfnun stjórnvalda með símhlerunum.
  3. Hann lagði til að lögfræðingi verði gert heimilt að rannsaka Foreign Intelliegence Surveillance Court, sem er sakaður um að afgreiða beiðnir yfirvalda um njósnir gagnrýnilaust.
  4. Hann tilkynnti skipan sérstaks hóp óháðra sérfræðinga sem munu fara yfir alla njósnatækni- og aðferðir stjórnvalda.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert