Barack Obama Bandaríkjaforseti boðaði til blaðamannafundar í Hvíta húsinu í kvöld þar sem hann hét því að gerðar yrðu „viðeigandi endurbætur“ á umdeildum eftirlitskerfum bandarískra yfirvalda. Hann sagði að slegnir yrðu frekari varnaglar gegn misnotkun á eftirlitinu, sem sumir kalla persónunjósnir.
Obama hefur varið starfsemi Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) síðan Edward Snowden lak upplýsingum sem afhjúpuðu víðfeðmt eftirlit með almennum borgurum í gegnum farsíma og net.
Á blaðamannafundinum í kvöld sagði forsetinn að Bandaríkin „geti og verði að vera gagnsærri“ í hlerunum sínum. „Í ljósi þess sem við þekkjum í sögunni um misnotkun stjórnvalda þá er eðlilegt að við spyrjum okkur spurninga um eftirlitið, sérstaklega í ljósi þess að tæknin mótar líf okkar í sífellt meiri mæli,“ sagði forsetinn.
„Það er ekki nóg að ég, sem forseti, treysti þessum áætlunum. Bandarískur almenningur verður að hafa traust á þeim líka.“
Obama setti fram áætlun í fjórum skrefum um umbætur til að tryggja traust Bandaríkjamanna á eftirliti NSA.