Dómstóll á Ítalíu hefur farið nýstárlega leið að því að kippa fótunum undan mafíustarfsemi. Roberto Di Bella, dómari við unglingadómstól á Suður-Ítalíu hefur á undanförnum árum hefur farið þá leið að svipta mafíuforingja umsjá barna sinna um leið og þau sýna af sér glæpsamlega hegðun.
Með þessu vonast hann til að brjóta upp vítahringinn sem hlýst af því að börn fæðist inn í mafíufjölskyldur og gerist sjálf glæpamenn. Alls hafa um 15 unglingar verið teknir frá fjölskyldum sínum. Algengast er að þetta séu strákar sem séu farnir að fremja smáglæpi og hnupl, og eru synir þekktra frammámanna í mafíum.
„Mafía byggist á fjölskylduböndum. Þess vegna er oft mjög erfitt að uppræta slíka starfsemi,“ segir Di Bella og bætir einnig við að alltaf sé erfitt að taka unglinga frá foreldrum sínum. „Allar slíkar ákvarðanir eru mér erfiðar, en okkur stendur bara ekki annað til boða.“
Antonio Nicaso, sérfræðingur í mafíufjölskyldum, sagði í samtali við BBC að hefðin væri sú að elsti sonurinn yrði arftaki föðurins í mafíunni. Dætur geta líka skipt miklu máli, því með því að gifta þær sonum annarra mafíuforingja sé hægt að tengja tvær fjölskyldur saman blóðböndum.
Di Bella segir að aðeins sé hægt að halda unglingunum frá foreldrum sínum til 18 ára aldurs, en hann vonast til þess að með því að fjarlægja þá frá glæpum muni unglingarnir sjálfir hafna arfleifð foreldranna þegar þeir ná 18 ára aldri.