Fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, vill að samhliða kosningum til Evrópuþingsins í maí á næsta ári verði boðað til þjóðaratkvæðis í landinu um undanþágur sem Danir fengu frá Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins fyrir um tveimur áratugum.
Danskir kjósendur höfnuðu Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæði árið 1992 og var í kjölfarið veittar fjórar undanþágur frá honum. Boðað var til nýs þjóðaratkvæðis ári síðar og var sáttmálinn þá samþykktur. Undanþágurnar snúa að þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins, samstarfi á sviði löggæslu- og dómsmála, ríkisborgararétti sambandsins og evrusvæðinu.
Þjóðaratkvæði um tvær undanþágur
Rasmussen, sem var forsætisráðherra 2009-2011 og er formaður stærsta stjórnmálaflokks Danmerkur Venstre, gerði grein fyrir tillögu sinni í ræðu sem hann flutti í dag í Noregi að því er segir á fréttavefnum Euobserver.com en hún gerir ráð fyrir þjóðaratkvæði um tvær af undanþágunum, varnarmálin og löggæslu- og dómsmálin.
Ekki er vilji fyrir því að kjósa um aðild að evrunni ,segir í fréttinni en skoðanakannanir hafa sýnt afgerandi meirihluta gegn upptöku hennar. Könnun fyrr á þessu ári sýndi þannig 62% andvíg því að skipta dönsku krónunni út fyrir evruna. Þá er stuðningur takmarkaður við þátttöku í samstarfi á vettvangi Evrópusambandsins í löggæslu- og dómsmálum eða 39% samkvæmt síðustu könnun.
Fæli í sér áhættu fyrir ríkisstjórnina
Hins vegar er málum farið á annan veg þegar kemur að varnarsamstarfi Evrópusambandsins en 55% eru samkvæmt skoðanakönnunum reiðubúin að falla frá undanþágunni á því sviði. Ríkisstjórn vinstriflokkanna í Danmörku hafði áður kynnt áform um þjóðaratkvæði um varnarmálin og löggæslu- og dómsmálin en ekki tilgreint hvenær það kynni að fara fram.
Fram kemur í fréttinni að mikil áhætta fælist í því fyrir dönsku ríkisstjórnina að tengja þjóðaratkvæði um að falla frá undanþágunum tveimur við kosningarnar til Evrópuþingsins þar sem það kynni að þýða aukna þátttöku kjósenda sem hafa efasemdir um Evrópusambandið. Nick Hækkerup, Evrópuráðherra Danmerkur, vildi að því er segir í fréttinni ekki lýsa yfir stuðningi stjórnvalda við tillögu Rasmussens.