Fulltrúar norska Verkamannaflokksins staðfestu í gær að fimm þeirra farþega sem sátu í leigubíl sem Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs ók, hafi fengið greitt fyrir. Um var að ræða lið í kosningabaráttu flokksins.
Stoltenberg vakti mikla athygli þegar hann setti sig í hlutverk leigubílstjóra, og sagði hann það góða leið til þess að hlusta á raddir fólksins.
Norska dagblaðið Verdens gang fór á stúfana í kjölfarið og komst að því að fimm farþeganna fengu greiddar 500 norskar krónur hver fyrir að taka þátt í gerð myndbandsins. Hinir voru valdir af handahófi af götunni. Um var að ræða gjörning sem auglýsingastofa skipulagði vegna þingkosninganna sem fara fram 9. september. Stoltenberg sjálfur segist ekki hafa haft vitneskju um að fólkið hafi fengið greitt fyrir þátttöku.
Sjá einnig: Jens Stoltenberg keyrir leigubíl