Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt harðlega þær aðgerðir sem egypsk stjórnvöld réðust í gegn mótmælendum í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í gær. Að minnsta kosti 278 eru sagðir hafa látist í átökunum sem brutust út í kjölfar áhlaups öryggissveita.
Þeir réðust á tvær mótmælabúðir í borginni þar sem stuðningsmenn Mohammeds Morsis söfnuðust saman í síðasta mánuði, eða skömmu eftir að herinn steypti honum af stóli forseta.
Búið er að lýsa yfir neyðarástandi og víða í egypskum borgum er nú í gildi útgöngubann.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir atburðina hörmulega sem hafi sett sáttarferlið í uppnám.
Catherine Ashton, yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafa einnig fordæmt þá hörku sem mótmælendurnir voru beittir.
Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins í Kaíró segir að framtíð Egyptlands sé nú í mikilli óvissu og margir séu óttaslegnir.
Hún segir að þrátt fyrir að útgöngubanninu í borginni hafi verið aflétt snemma í morgun þá séu fáir á ferð.