Dauðadæmdir fangar í Kína hafa að miklu leyti staðið undir líffæraígræðslum í landinu undanfarin ár. Tvö af hverjum þremur gjafalíffærum eru tekin úr föngum eftir aftöku, en nú hafa kínversk stjórnvöld tilkynnt að frá og með nóvember verði þessum sið hætt, enda hafa mannréttindasamtök gagnrýnt hann mjög.
BBC hefur eftir Huang Jiefu, embættismanni í heilbrigðisráðuneyti Kína, að eftirleiðis verði aðeins notuð líffæri frá sjálfviljugum líffæragjöfum við ígræðslur. Huang er sjálfur einn af færustu skurðlæknum Kína.
Opinberar tölur sýna að árlega þurfa um 300.000 Kínverjar á líffæraígræðslum að halda, en aðeins lítill hluti þeirra, eða um 10.000 sjúklingar, fær líffæri.
Kína viðurkenndi fyrir nokkrum árum að dauðadæmdir fangar væru nýttir sem líffæragjafar, eftir að hafa hafnað ásökunum um það árum saman.
Huang hefur látið hafa eftir sér að tími sé kominn fyrir Kína að koma sér upp líffæragjafakerfi við hæfi. Hann segir jafnframt að ekki hafi reynst vel að taka líffæri úr föngum enda séu þau oftar en ekki sýkt sem hafi áhrif á lífslíkur þess sem gengst undir ígræðsluna.
Mannréttindasamtök áætla að Kínverjar taki þúsundir fanga af lífi árlega, en tölurnar eru ekki birtar opinberlega heldur sagðar ríkisleyndarmál.