Verðmiði á fréttamönnum í Sýrlandi

Sífellt fleiri stríðsfréttamönnum er rænt í Sýrlandi og lausnargjalds krafist. Landið er skráð sem það hættulegasta í heimi fyrir fréttamenn en þrettán hafa látist þar á þessu ári og fjórtán hafa horfið sporlaust eða eru í haldi mannræningja. Óttast er að talan sé mun hærri.

Stríðsfréttamaðurinn Ammar Abd Rabbo segist hafa brugðið mikið nýverið þegar fregnir bárust af því að greitt hafði verið lausnargjald fyrir fréttamann sem var í haldi mannræningja, og ekki síður vegna þess hversu hátt lausnargjald var greitt. „Þetta er mikil óvarkárni og hreinlega hættulegt, torveldar vinnu okkar í landinu og gerir hana mun varasamari. Nú er kominn verðmiði á stríðsfréttamenn. Nú vita mannræningjar að þessa upphæð má fá fyrir vestræna fjölmiðlamenn.“

Erfitt er að segja til um það hvaða hópar það eru helst sem ræna fréttamönnum en nýverið var því haldið fram að hópur hliðhollur Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, hafi rænt pólskum fréttamanni. Hópurinn hafi hins vegar haldið því fram að um væri að ræða róttæka múslíma. „Stjórnin reynir að bægja fólki frá Sýrlandi svo sprengjuregn hennar og fjöldamorð geti farið fram í kyrrþey,“ segir Rabbo. „Þess vegna tel ég það skyldu stríðsfréttamanna að fara til landsins aftur og aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert