Bandaríski glæpasagnahöfundurinn Elmore Leonard er látinn 87 ára að aldri. Meðal frægra bóka eftir Leonard eru Get Shorty, Maximum Bob og Out of Sight. Hann var að vinna að bók númer 46 þegar hann lést, samkvæmt frétt á vef BBC.
Í grein sem Sæbjörn Valdimarsson skrifaði í Tímarit Morgunblaðsins í janúar árið 2006 kom fram að Leonard fæddist árið 1925 og hefur því lifað tímana tvenna, bernskuminningarnar nátengdar kreppunni og afsprengjum hennar, líkt og sögufrægum bófagengjum og glæpamönnum á borð við Bonnie og Clyde og Pretty Boy Floyd.
„Dutch“, eða „Detroit Dickens“, eins og Leonard er oft kallaður (hann notar oftast heimaborgina sem sögusvið), kom fram á sjónarsviðið sem smásagnahöfundur í tímaritum við upphaf sjötta áratugarins, en The Bounty Hunters, fyrsta langa skáldsagan, kom út 1953. Reyfari úr villta vestrinu, sem þá átti stóran lesendahóp. Fleiri slíkir fylgdu í kjölfarið og fer litlum sögum af ágæti þeirra fyrr en sú fimmta kom út árið 1961. Það var Hombre, sem var valin ein besta villta-vesturs-skáldsaga allra tíma af samtökum bandarískra vestrahöfunda, segir í grein Sæbjörns.
Fram til þessa hafði Leonard brauðfætt sjö manna fjölskyldu sína með textagerð fyrir auglýsingastofur en stundað skáldsagnagerðina í frítímanum. Nú taldi hann loks tímabært að helga sig skriftum eingöngu og skipti í leiðinni um stíl. Vestrinn var á undanhaldi og Leonard veðjaði á glæpasöguna, þar sem hann hefur haldið sig nokkurn veginn óskiptur síðan. Sú fyrsta, The Big Bounce, kom út 1961.
Það tók Leonard nokkurn tíma að ná virðingu og fótfestu á spennusagnamarkaðnum - þótt bækur hans seldust þokkalega og fengju flestar góða dóma. Glitz ('85) var tímamótaverkið, fékk óspart lof og komst ofarlega á metsölulistana. Björninn var unninn. Leonard fylgdi henni eftir með hinni mögnuðu Bandits ('87), en hún var þýdd á íslensku af Illuga Jökulssyni, samkvæmt grein Sæbjörns..
„Síðan hafa snilldarverkin flætt jafnt og þétt úr penna skáldsins: Killshot ('89), Get Shorty ('90), Maximum Bob ('91), Rum Punch (‘92), Out of Sight ('96), Be Cool ('99), Pagan Babies ('00), Tishomingo Blues ('02), og nú síðast The Hot Kid ('05). Hér er aðeins getið þeirra helstu, sem allar með tölu eru einstaklega skemmtilegar aflestrar, þrungnar litríkum persónum með ólíkan bakgrunn. T.d. gerist hin frábæra Pagan Babies að hluta til í skugga þjóðarmorðsins í Rúanda - löngu áður en Hotel Rwanda ýtti um sinn við samvisku heimsins,“ skrifaði Sæbjörn í janúar árið 2006.