Stjórnvöld í Venesúela ætla að láta setja upp 30.000 eftirlitsmyndavélar í landinu í þeim yfirlýsta tilgangi að sporna gegn glæpum. Þarlendir embættismenn tilkynntu um þetta í dag. Flestar myndavélarnar, sem framleiddar verða í Kína, verða settar upp í höfuðborginni Caracas. Þegar hafa verið settar upp slíkar vélar í einu hverfi borgarinnar í tilraunaskyni.
„Markmiðið er að koma upp 30.000 eftirlitsmyndavélum á landsvísu sem og öðrum eftirlitsbúnaði í þeim tilgangi að safna upplýsingum jafnóðum og hlutirnir gerast,“ er haft eftir innanríkisráðherra Venesúela, Miguel Rodriguez, í frétt AFP. Ennfremur segir í fréttinni að glæpir séu taldir algengastir í Venesúela af löndum Suður-Ameríku en þar voru framin 16.000 morð á síðasta ári. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafa 3.400 morð verið framin í landinu samkvæmt opinberum tölum.
Gert er ráð fyrir að þær upplýsingar sem safnast með notkun tækjanna verði aðgengilegar fyrir lögreglu við rannsókn glæpamála.