Danir gætu þurft að taka upp á því að flytja inn Carlsberg bjórtegundina frá nágrannalöndunum Þýskalandi, Svíþjóð eða Finnlandi ef fram fer sem horfir. Kjaradeilur eru nú í gangi á milli starfsmanna og eigenda brugghússins eftir að einn starfsmaður hússins neitaði að skrá sig í stéttarfélag starfsmanna. Hinir 130 starfsmennirnir gátu ekki við það unað og fóru í verkfall. Brugghúsið á nú sem stendur vikubirgðir af bjór og öðrum drykkjarvörum sem það framleiðir.
Berlingske greindi frá þessu í gær.
Dómstóll í Danmörku komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að verkfalli væri ólögmætt, en starfsmennirnir eru ekki enn mættir til starfa. Fjölmiðlafulltrúi brugghússins hefur miklar áhyggjur. „Við erum farnir að skoða hvernig við getum séð viðskiptavinum okkar fyrir vörunum. Við höfum litið til Þýskalands, Svíþjóðar og Finnlands og það gæti farið svo að við kaupum þaðan og seljum það svo til viðskiptavina okkar.“