Skaut 2ja ára barnabarn í sjálfsvörn

Luis Efrain Torres.
Luis Efrain Torres. Skjáskot af Lilburn-MountainPark Patch

Hinn 39 ára gamli Luis Efrain Torres hefur verið ákærður fyrir morðið á dóttursyni sínum, hinum 23 mánaða gamla Deandre Vega, sem skotinn var til bana aðfaranótt miðvikudagsins sl. í Norcross í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

Vega er sagður hafa verið fórnarlamb fjölskylduerja, en lögregla telur að Torres hafi átt í rifrildi við föður Vega, Rochell McCoy. Er hann sagður hafa skotið nokkrum skotum í átt að McCoy þar sem hann stóð í innkeyrslunni við heimili Torres og mun drengurinn hafa orðið fyrir skoti.

Vega og foreldrar hans bjuggu ekki hjá Torres á þeim tíma sem atvikið varð, en munu hafa búið þar áður. Þau eru sögð hafa komið aftur á heimili Torres á þriðjudagskvöldinu.

Torres kveðst hafa hleypt skotunum af í sjálfsvörn. Ekki er vitað hver orsök rifrildis Torres og McCoy var, en Torres sagði í viðtali við Channel 2 Action News: „Ég var að rífast við hann og hann við mig. Hann henti mér í gólfið og ýtti mér og sló mig.“

Þegar Torres gerði sér grein fyrir því hvað gerst hefði hljóp hann til barnsins að eigin sögn. Hann kveðst vera miður sín yfir dauða barnabarns síns.

Nágrannar Torres hringdu á neyðarlínuna eftir að þeir heyrðu skothljóðin og fundu lögreglumenn sært barnið í innkeyrslunni. Vega var fluttur með sjúkrabíl á spítala en ekki tókst að bjarga honum.

„Ég elska fjölskylduna mína en ég hef misst allt,“ sagði Torres.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert