Sjö ára stúlka skaut sex ára vinkonu sína til bana með 9 mm skammbyssu afa síns þar sem stúlkurnar voru að leik á bóndabæ í Suður-Afríku á laugardag.
Yngri stúlkan var úrskurðuð látin á staðnum. Sú var dóttir vinnumanns á bóndabænum og hafði verið vinkona hinnar eldri, sem var barnabarn eiganda bóndabæjarins, um nokkurt skeið.
Eldri stúlkan var í heimsókn hjá ömmu sinni og afa á bóndabæ þeirra rétt utan við Bela-Bela þegar atvikið átti sér stað. Er hún nú komin heim til foreldra sinna í Jóhannesarborg.
Lögreglan rannsakar málið nú sem morðmál en ákæruvaldið á eftir að taka ákvörðun um hvernig haldið verður áfram, þar sem stúlkan er ekki sakhæf.
Afi hennar, sem er sextugur, á að mæta fyrir rétt í dag til að svara fyrir ásakanir um gáleysislega meðferð skotvopns.
Skotvopnalöggjöf í Suður-Afríku er ströng en byssueign er algeng meðal borgara. Árið 2011 var talið að um 2,9 milljónir skráðra skotvopna væri að finna þar í landi, en íbúar Suður-Afríku eru tæplega 52 milljónir.