Eftirlitsmenn SÞ farnir af stað

Efnavopnaárásinni hefur verið mótmælt víða um heim. Þessi mynd er …
Efnavopnaárásinni hefur verið mótmælt víða um heim. Þessi mynd er frá mótmælum í Tyrklandi. ADEM ALTAN

Eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum eru lagðir af stað til að rannsaka ásakanir um að sýrlenski herinn hafi notað efnavopn þegar gerð var loftárás á úthverfi í Damaskus á miðvikudag.

Stjórnvöld í Sýrlandi og uppreisnarmenn hafa fallist á vopnahlé til að gefa eftirlitsmönnum tækifæri til að rannsaka ásaknir um efnavopnaárás og skoða vettvang árásarinnar.

Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa gagnrýnt ríkisstjórn Sýrlands fyrir að vera sein til að svara kröfum um að heimila eftirlitsmönnum að rannsaka vettvang voðaverksins. Fimm dagar eru síðan árásin átti sér stað.

Sýrlensk stjórnvöld neita alfarið að hafa beitt efnavopnum í borgarastyrjöldinni. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, sagði ásakanir af þessu tagi „móðgun við heilbrigða skynsemi“. Hann sagði í samtali við rússneska dagblaðið Izvestiya að þeir sem dreymdi um að gera Sýrland að leppríki Vesturlanda lifðu í blekkingu. Það myndi aldrei gerast. Hann sagði að innrás Bandaríkjanna í Sýrland myndi mistakast eins og hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í önnur lönd frá Víetnamstríðinu.

Hague ræddi um aðgerðir án aðildar SÞ

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í útvarpsviðtali í dag að tilraunir til að stöðva átökin í Sýrlandi eftir diplómatískum leiðum hefðu mistekist. Þessar leiðir yrðu áfram reyndar, en Bretland og fleiri ríki væru að íhuga aðrar aðgerðir, án þess að Sameinuðu þjóðirnar stæðu að þeim. Hann sagði að það væri ekki hægt að sætta sig við að þeir sem notuðu efnavopn á 21. öld kæmust upp með það án refsingar.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að sýrlenski herinn hafi ekki …
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að sýrlenski herinn hafi ekki notað efnavopn í stríðinu. -
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert