Sex ára kínverskur drengur varð fyrir hrottalegri árás þar sem augun voru stungin úr honum og er ljóst að drengurinn verður blindur það sem eftir er ævinnar. Er talið að líffæraþjófar standi á bak við árásina, samkvæmt fréttum kínverskra fjölmiðla í dag.
Fólk úr fjölskyldu drengsins fann hann alblóðugan um þremur, fjórum klukkustundum eftir að hann hvarf en drengurinn hafði verið úti að leika sér fyrir utan heimili sitt.
Augu drengsins fundust þar skammt frá en búið var að fjarlægja hornhimnu þeirra og ýtir það undir getgátur um að líffæraþjófar hafi staðið á bak við árásina.
Lögregla hefur boðið 100 þúsund júan, tæpar tvær milljónir króna, fyrir upplýsingar sem geta leitt til handtöku árásarmannsins, sem talið er að sé kona.
Á vef Daily Mail er hægt að sjá myndir af drengnum og fjölskyldu hans í heimsókn.
Samkvæmt frétt CCTV-sjónvarpsstöðvarinnar var drengurinn meðvitundarlaus eftir lyfjagjöf þegar augun voru fjarlægð úr honum.