Skólayfirvöld í Svíþjóð tóku í gær ákvörðun um að loka tímabundið Lundsberg-heimavistarskólanum eftir að allt fór úr böndum við busavígslu um síðustu helgi. Tveir piltar voru fluttir á sjúkrahús eftir að hafa verið brenndir með heitu straujárni í busavígslunni.
Lundsberg er einkarekinn skóli fyrir á börn á gagnfræða- og menntaskólaaldri. Skólinn var stofnaður árið 1896. Meðal nemenda sem hafa stundað nám við skólann er Carl Philip, bróðir Viktoríu krónprinsessu.
Lundsberg og nokkrir svipaðir skólar í Svíþjóð hafa öðru hverju verið í fréttum vegna ásakana um ofbeldi og klíkuskap. Lögreglan rannsakaði Lundsberg í fyrra vegna orðróms um ofbeldi og síðast í vor fékk skólinn áframhaldandi starfsleyfi eftir að hafa fullvissað yfirvöld um að búið væri að taka fyrir allar misþyrmingar í busavígslum. Nú er þolinmæði skólayfirvalda á þrotum og því hefur skólanum verið lokað.
Sérstök skoðun var gerð á skólanum í fyrravetur og lauk henni í apríl. Skólinn greip til aðgerða í samræmi við kröfur skólayfirvalda. Ann-Marie Begler, sem er í forsvari fyrir stofnun sem hefur eftirlit með skólastarfi í Svíþjóð, segir sorglegt að sjá svona atvik koma upp svo skömmu eftir að eftirlitsmenn hafi farið inn í skólann. Hún segir að ákvörðun um að loka skólanum verði ekki endurskoðuð fyrr en búið er að tryggja öryggi barna sem stunda þar nám.
Í fréttatilkynningu frá stjórn skólans segir að skólinn hafi frest til 29. nóvember til að gera skólayfirvöldum grein fyrir því hvernig þau ætli að tryggja öryggi nemenda í skólanum.
Samhliða þessari ákvörðun hafa stjórnvöld ákveðið að hætta að greiða styrk til Lundsberg. Alls óvíst er því hvort skólinn verður opnaður aftur.