Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að 1.429 hafi látist í efnavopnaárás sýrlenskra hersveita í nágrenni Damaskus í síðustu viku.
John Kerry segir ennfremur, að 426 börn hafi verið á meðal þeirra sem létust. Kerry segir að árásin sé „ótrúlegur hryllingur“.
Bandaríkjastjórn hvetur nú önnur ríki til að sameinast gegn sýrlenskum stjórnvöldum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari efnavopnaárásir.
Ríkisstjórn Assads Sýrlandsforseta neitar sök og vísar á uppreisnarmenn.
Upphaflega var talað um að 355 hefðu látist í árásinni sem átti sér stað í Damaskus 21. ágúst sl.
Kerry segir aftur á móti að Bandaríkin hafi sannanir undir höndum sem sýni að 1.429 hafi beðið bana í árásinni. Hann bætir því við að stjórnarhersveitirnar hafi undirbúið aðgerðina þremur dögum fyrr.
„Við vitum að flugskeyti komu frá svæðum sem eru undir stjórn stjórnarhersins og að þau lentu aðeins á svæðum sem tilheyra stjórnarandstæðingum,“ sagði Kerry.
„Þetta vitum við; leyniþjónusta Bandaríkjanna er viss í sinni sök,“ bætti ráðherrann við.