Bandaríski hæstaréttardómarinn Ruth Ginsburg mun gefa saman samkynhneigt par í brúðkaupi á morgun. Ginsberg lagði blessun sína yfir lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra í tímamótaúrskurði sem féll í hæstrétti Bandaríkjanna í júní sl.
Ginsburg, sem er áttræð, er elsti dómarinn sem nú á sæti í hæstarétti og ein af fjórum dómurum sem þykja mjög framsæknir. Alls eiga níu dómarar sæti í æðsta dómstóli Bandaríkjanna.
Á morgun munu þeir Michael M. Kaiser, forseti Kennedy-listamiðstöðvarinnar í Washington, ganga að eiga hagfræðinginn John Roberts. Talskona hæstaréttar segir að Ginsburg muni stýra athöfninni.
Fram kemur í bandaríska dagblaðinu Washington Post að Ginsburg hlakki til athafnarinnar.
„Ég held að þetta verði enn ein yfirlýsing sem segir að fólk sem elski hvort annað og vilji búa saman eigi að fá að njóta þeirrar blessunar og átaka sem fylgi því að vera í hjónabandi,“ segir Ginsburg í samtali við blaðið.
Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu í júní sl. að samkynhneigð pör eigi að fá að njóta sömu réttinda til hjúskapar og gagnkynhneigð pör.
Í dag mega samkynhneigð pör lögum samkvæmt ganga í hjónaband í 14 af 50 ríkjum Bandaríkjanna.