Obama vill grípa til hernaðaraðgerða

Samsett mynd sem sýnir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Bashar …
Samsett mynd sem sýnir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segist vilja grípa til hernaðaraðgerða gegn Sýrlandi, sem bandarísk stjórnvöld segja að beri ábyrgð á dauða 1.429 manns í efnavopnaárás. Obama tekur hins vegar fram að hann muni leita samþykkis Bandaríkjaþings.

Þetta sagði Obama á blaðamannafundi sem fór fram við Hvíta húsið í Washington.

Obama hefur, sem æðsti yfirmaður Bandaríkjahers, heimild samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna til að fyrirskipa hernaðaraðgerðir án þess að hljóta formlegt samþykki Bandaríkjaþings. Obama hefur hins vegar ákveðið að óska eftir þessari heimild frá kjörnum fulltrúum þjóðarinnar því það væri mikilvægt lýðræðinu í Bandaríkjunum.

„Ég mun óska eftir heimild frá fulltrúum bandarísku þjóðarinnar á þingi til að beita valdi,“ sagði forsetinn á blaðamannafundinum.

Hann segir að Bandaríkin séu reiðubúin að gera árás á skotmörk í Sýrlandi hvenær sem er. Hann tekur fram að hann vilji að Bandaríkjaþing komi fljótt saman til að ræða og greiða atkvæði um tillöguna. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að þingið komi aftur saman 9. september.

Obama segir að málið sé svo alvarlegt að menn geti ekki horft fram hjá því. Börn séu á meðal þeirra sem létust í efnavopnaárásinni. Það yrði slæmt fordæmi ef heimsbyggðin sæti aðgerðalaus hjá.

Forsetinn segir ennfremur að gripið verði til takmarkaðra aðgerða en markmiðið sé að gefa skýr skilaboð um að notkun efnavopna verði ekki liðinn. Hann segir ennfremur að hernaðaraðgerðirnar geti hafist á morgun, í næstu viku eða í náinni framtíð.

Bandaríkjastjórn segir að sýrlensk stjórnvöld hafi staðið á bak við efnavopnaárás í úthverfi Damaskus, höfuðborg Sýrlands, 21. ágúst sl. Sýrlensk stjórnvöld vísa þessum ásökunum hins vegar alfarið á bug og vísa fingrinum á uppreisnarmenn.

Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna voru sendir til landsins til að rannsaka málið. Þeir yfirgáfu landið í dag eftir að hafa safnað sýnum sem verða nú rannsökuðu á evrópskum rannsóknarstofum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert