Taugagasið sarín er uppistaða þeirra efnavopna sem sýrlensk stjórnvöld eru sökuð um að hafa notað gegn almennum borgurum. Bandarísk stjórnvöld segja beitingu þessara vopna kornið sem fyllti mælinn, en hvað er sarín?
Nafnið er myndað úr nöfnum efnafræðinganna sem fyrstir uppgötvuðu það: Schrader, Ambros, Rüdiger og Vand der Linde. Þeir ætluðu sér að þróa öflugt meindýraeitur, en nasistar sáu sér leik á borði og þróuðu saríngas áfram sem efnavopn í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar, árið 1938.
Saríngas var þó aldrei notað í bardögum í Seinna stríði, en það varð alræmt þegar íraski einræðisherrann Saddam Hussein beitti því ásamt öðrum efnavopnum í þjóðernishreinsunum gegn Kúrdum í bænum Halabja árið 1988.
Allt að 5.000 Kúrdar létu lífið í árásinni og 65.000 særðust. Íraksher notaði sambland af sarín, sinnepsgasi og hugsanlega taugagasinu VX sem er 10 sinnum öflugra en sarín. Árásin í Halabja er talin vera alvarlegasta eiturgasárás sem nokkurn tíma hefur verið gerð á almenna borgara.
Japanskur sértrúarsöfnuður notaði saríngas einnig, í hryðjuverkaárásum á neðanjarðarlestarkerfi Tókýó í mars 1995 og árið áður í borginni Matsumoto. Alls létu 20 manns lífið í þessum tveimur árásum en yfir 6000 særðust af völdum gassins, m.a. misstu margir sjón.
Saríngas ræðst á taugakerfið við innöndun. Það hefur lamandi áhrif á öndunarfærin og vöðvana umhverfis lungun. Sarín veldur því dauða með köfnun. Einkenni saríngaseitrunar geta m.a. verið ógleði og mikill höfuðverkur, sjóntruflanir, vöðvakrampar, öndunarörðugleikar og meðvitundarleysi.
Í miklu magni, s.s. 200 mg skammti með innöndun, getur saríngas leitt til dauða innan nokkurra mínútna án þess að einkennin nái að sjást. Áhrifin eru hægari komist eitrið í fljótandi formi í nertingu við húðina og getur þá liðið hálftími eða lengur áður en fyrstu einkenni koma fram.
Sarín veldur ekki alltaf dauða en það hefur yfirleitt alltaf í för með sér mikinn skaða m.a. á lungum, augum og miðtaugakerfinu. Sarín er eðlisþyngra en súrefni og getur því hangið í andrúmsloftinu í allt að 6 klukkustundir.
Sýrlensk stjórnvöld eru talin hafa yfir hundruðum tonna af ýmiskonar efnavopnum að ráða. Þá er talið ljóst að Sýrlandsher sé tæknilega fær um að dreifa slíku eiturgasi.
Allt að þrjár vikur gætu liðið áður en endanlegar niðurstöður liggja fyrir í rannsókn vopnaeftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna í Damaskus. Bandaríkjamenn segjast hinsvegar hafa fullvissu um að því hafi verið beitt að undirlagi sýrlenskra stjórnvalda.
John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjamanna sagði í að í hár- og blóðsýnum sem tekin hefðu verið á vettvangi árásanna í Damaskus 21. ágúst væri að finna leifar saríns.
Sýnin voru að sögn Kerry afhent Bandaríkjunum einum og voru ekki liður í rannsókn Sameinuðu þjóðanna. Áður hafði Kerry greint frá því á föstudag að 1.429 hefðu látið lífið í efnavopnaárásunum, þar af 426 börn.