Segja að Obama hafi gert mistök

Obama Bandaríkjaforseti hélt blaðamannafund í Rósagarðinum við Hvíta húsi í …
Obama Bandaríkjaforseti hélt blaðamannafund í Rósagarðinum við Hvíta húsi í gær. AFP

Sýrlenskir stjórnarandstæðingar segja að ákvörðun Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, um að óska eftir heimild frá Bandaríkjaþingi til hernaðaríhlutunar í Sýrlandi muni efla hersveitir Assads Sýrlandsforseta. 

Louay Safi, talsmaður Þjóðarráðs Sýrlands, segir að ákvörðun Bandaríkjaforseta sé mistök og ekki til marks um ráðsnilld. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Stjórnarhersveitir í Sýrlandi hófu aftur árásir á svæði í Damaskus sem eru undir stjórn uppreisnarmanna stuttu eftir að Obama hafði lokið við að ávarpa bandarísku þjóðina við Hvíta húsið í gær. 

Sýrlensk stjórnvöld vísa því á bug að herinn hafi beitt efnavopnum í árás hinn 21. ágúst sl. 

Bandaríkin halda því fram að 1.429 hafi fallið í efnavopnaárás hersins. 

Obama sagði að farið væri yfir rautt strik ef slíkar árásir ættu sér stað og þá yrðu Bandaríkin að grípa til aðgerða gegn Sýrlandi. 

Á blaðamannafundi í gær sagði Obama að hernaðaraðgerðir í landinu yrðu takmarkaðar. Hann útilokaði þann mögulega að hersveitir yrðu sendar inn í landið. Hann er búinn að senda Bandaríkjaþingi drög að lagafrumvarpi þar sem hann óskar formlega eftir heimild Bandaríkjaþings til að grípa til aðgerða.

Bandaríkjaþing mun koma aftur saman 9. september. Það þýðir að ekki verði gripið til neinna aðgerða fyrr en eftir þá dagsetningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert