Bandarískir og ástralskir kafarar hafa sótt sprengjur sem bandarískar herþotur, sem voru við heræfingar, létu falla ofan í Kóralrifið mikla við Ástralíu.
Kafararnir tengdu loftbelgi við tvær óvirkar GBU-12-sprengjur sem flutu upp á yfirborðið. Aðgerðirnar tóku alls tvo daga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bandarískum og áströlskum embættismönnum.
Tekið er fram að búið sé að fjarlægja og eyða sprengjunum og að öllum umhverfis- og öryggiskröfum hafi verið mætt.
Tvær BDU-45-sprengjur liggja enn á botninum en ekki tókst að sækja þær sökum erfiðra skilyrða til köfunar. Tekið er fram að ekkert sprengiefni sé í þeim, heldur séu þær fullar af sementi.
Í síðasta mánuði slepptu tvær bandarískar Harrier-herþotur sprengjunum yfir kóralrifinu í kjölfar sameiginlegra heræfinga með áströlskum hersveitum. Gripið var til þess ráðs eftir að bátar með óbreyttum borgurum höfðu óvænt siglt inn á svæði þar sem herþoturnar áttu að sleppa sprengjunum.
Tundurduflaslæðarinn HMAS Gascoyne fann sprengjurnar fyrir hálfum mánuði.
Kóralrifið mikla er stærsta kóralrif heims og þjóðgarður. Russell Reichelt, stjórnandi þjóðgarðsins, segir að staðfest hafi verið að sprengjurnar hafi lent á sandi en ekki á kórölum og fjarri viðkvæmum svæðum.