Ársgamall drengur lét lífið í gærkvöldi í Brooklyn í New York eftir að hafa orðið fyrir byssuskoti. Drengurinn, Antiq Hennis, var ásamt foreldrum sínum staddur skammt frá heimili þeirra og sat í barnakerru þegar nokkrum byssukúlum var skotið að þeim og fór ein þeirra í höfuð hans.
Fram kemur á fréttavef bandaríska dagblaðsins Daily News að lögregla telji að ætlunin hafi verið að myrða föður drengsins. Haft er eftir vegfarendum að faðirinn hafi verið viti sínu fjær vegna árásarinnar og hrópað í sífellu að barnið hans hafi orðið fyrir skoti. Drengurinn hafi andað en verið án meðvitundar.
Drengurinn var sá eini sem varð fyrir skoti og var farið með hann í flýti á næsta sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.