Assad og Kerry áttu náið samband

John Kerry og eiginkona hans áttu vinalega kvöldstund með sýrlensku …
John Kerry og eiginkona hans áttu vinalega kvöldstund með sýrlensku forsetahjónunum á veitingastað í Damaskus 2009. Nú er annað uppi á teningnum.

John Kerry kallar nú Bashar al-Assad Sýrlandsforseta óþokka og morðingja og flokkar hann með Adolf Hitler og Saddam Hussein. Ekki hefur þó alltaf andað köldu þeirra á milli, eins og má sjá á ljósmynd sem dúkkað hefur upp af vinalegum kvöldverði Kerry og Assad hjónanna í Damaskus 2009.

Myndin hefur farið víða á netinu síðustu daga, þar á meðal á samfélagsmiðlinum Twitter. Þar sjást forsetahjónin Asma og Bashar al-Assad sitja að snæðingi með John Kerry og eiginkonu hans Teresa Heinz. Talið er að myndin sé tekin á veitingastaðnum Naranj í Damaskus.

Heimsótti Assad oftar en einu sinni

John Kerry var á þessum tíma öldungadeildarþingmaður Massachussets en hann var jafnframt formaður utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings og heimsótti Sýrland a.m.k. fimm sinum til að funda með Assad um frið á Mið-Austurlöndum.

Þegar hann ætlaði að heimsækja Assad í mars 2011 gripu Barack Obama og Nicolas Sarkozy í taumana og stöðvuðu hann, en þá voru átökin í Sýrlandi byrjuð að krauma. Þann 16. mars 2011, daginn eftir fyrstu fjöldamótmælin gegn Sýrlandsstjórn, lét Kerry hafa eftir sér að Assad væri maður orða sinna og einkar almennilegur.

Alþjóðlega fréttastofan Jewish Telegraph Agency sagði þá að Kerry hefði „myndað náið samband við Sýrlandsstjórn, sem annars væri almennt talin óæskileg á Vesturlöndum, í von um að koma í veg fyrir að Sýrland yrði fyrir áhrifum frá Íran.“

Samband þeirra Kerry og Assad kom til tals þegar stefndi í að Kerry yrði skipaður utanríkisráðherra í desember 2012, en virðist ekki hafa komið að sök. Þá hafði stríðið í Sýrlandi staðið í tæp tvö ár. 

Óþokki, morðingi og einræðisherra

Vel virðist fara á með þeim Kerry og Assad á myndinni, en síðan eru liðin 4 ár og síðustu daga hefur bandaríski utanríkisráðherrann ekki sparað stóru orðin um Sýrlandsforseta.

Á sunnudaginn sagði Kerry í viðtali á NBC sjónvarpsstöðinni að Assad væri nú „kominn í félagsskap með Adolf Hitler og Saddam Hussein sem báðir notuðu [efnavopn] á stríðstímum“.

Á föstudaginn flutti Kerry ræðu í Wasington þar sem hann kallaði Assad „óþokka og morðingja“ og hvatti til hernaðaraðgerða með þeim orðum að Bandaríkjamenn verði dæmdir hart síðar meir í sögunni ef þeir sjái í gegnum fingur sér með einræðisherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert