„Bækur eru leiðin til að sigra hryðjuverkamenn,“ sagði pakistanska stúlkan Malala Yousafzai þegar hún opnaði nýtt borgarbókasafn í Birmingham. Hún hefur dvalist þar síðustu misseri, en liðsmaður Al-Qaeda reyndi að ráða hana af dögum fyrir einu ári.
Malala er aðeins 16 ára gömul, en hún hefur vakið athygli um allan heim fyrir baráttu sína fyrir menntun stúlkna.
Malala sagði að meðan hún bjó í Pakistan hefði hún lesið níu bækur, fyrir utan skólabækurnar. Eftir að hún kom til Bretlands hefði hún hitt ung börn sem hefðu lesið nokkur hundruð bækur.
Malala sagði að lesendur bóka gætu ferðast um allan heiminn og jafnvel fram og aftur í tíma. „Besta leiðin til að útskýra mikilvægi bóka er að jafnvel guð valdi þennan miðil til að koma boðskap sínum til fólks,“ sagði Malala.
„Það er sagt að herbergi án bóka sé eins og líkami án sálar. Borg án bókasafns er eins og kirkjugarður,“ sagði Malala.