Yfir tvær milljónir Sýrlendinga eru á flótta en fjöldi sýrlenskra flóttamanna hefur tvöfaldast á síðustu sex mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.
Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að rúmlega 700 þúsund Sýrlendingar hafi flúið til Líbanon og ef horft er til þjóðerna þá er engin þjóð jafn fjölmenn í hópi flóttamanna og Sýrlendingar.
Frakkar og Bandaríkjamenn hvetja nú önnur vestræn ríki til þess að taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn sýrlenskum yfirvöldum. Verður möguleg innrás rædd í bandarískri þingnefnd í dag en væntanlega verða ekki greidd atkvæði um innrás á Bandaríkjaþingi fyrr en í næstu viku þar sem þingmenn eru í sumarleyfi.
Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð SÞ er stöðugur straumur kvenna, barna og karla yfir landamærin. Í mörgum tilvikum er fólkið ekki með neitt annað í farteskinu en lítinn fatapinkil á bakinu. Um það bil helmingur flóttamannanna eru börn og eru 75% þeirra undir 11 ára aldri.