John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók af öll tvímæli þegar hann bar vitni fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar, um að ekki stæði til að senda bandaríska hermenn til Sýrlands.
Kerry, Chuck Hagel varnarmálaráðherra og Marin Dempsey, formaður bandaríska herráðsins, komu fyrir nefndina og svöruðu spurningum þingmanna um hugsanlegar loftárásir á Sýrland.
Þingmenn sem tóku til máls á fundinum ræddu margir um þær hryllilegu myndir sem sýndar hefðu verið af börnum sem urðu fyrir árásinni, bæði börnum sem fórust og börnum sem börðust við að ná andanum. Einn þingmaður sagði að þetta væru skelfilegar myndir og það væri erfitt að horfa á þær, en hvatti jafnframt þingmenn til að leggja það á sig. Þær sýndu hvað væri í gangi í Sýrlandi.