Utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í dag með 10 atkvæðum gegn 7 að styðja tillögu sem heimilar loftárásir á Sýrland. Búist er við að gerðar verði árásir á landið í næstu viku.
Tillagan gerir ráð fyrir að heimilað verði að gera takmarkaðar árásir á Sýrland í 90 daga og að heimilt verði að framlengja þessar árásir um 30 daga til viðbótar. Ekki er gert ráð fyrir að bandarískir hermenn séu sendir til Sýrlands.
Tillagan verður tekin fyrir í öldungadeildinni í næstu viku. Demókratar fara með meirihluta í öldungadeildinni, en Repúblikanar í fulltrúadeildinni.
Fyrr í dag var ákveðið að umræða færi fram í franska þinginu um mögulega árás á Sýrland. Þingið mun ekki greiða atkvæði um málið, en samkvæmt lögum í Frakklandi hefur forseti landsins heimild til að taka ákvörðun um beitingu hervalds.