Karl Gústaf Svíakonungur hefur orðið fyrir harðri gagnrýni vegna viðtalsins sem hann veitti fjölmiðlum í tilefni af því að Madeleine dóttir hans á von á barni. Viðtalið þótti nokkuð sérstakt, en í því minntist konungur m.a. á Ísland.
Í viðtalinu sagði Karl Gústaf að hann myndi að sjálfsögðu verða virkur í afahlutverkinu og bætti við að hann myndi verða duglegur við að skipta um bleiur á krílinu.
„Ég mun augljóslega vera mjög virkur. Ég mun loka búðinni og einbeita mér alfarið að þessu. Þar sem hún býr í New York þá mun ég ekki vera mikið í Svíþjóð næstu árin, svo mikið er víst. Þannig að það verður í góðu lagi,“ sagði Svíakonungur léttur í bragði.
Í framhaldinu var hann spurður hvort Madeleine myndi flytja aftur til Svíþjóðar.
„Vissulega. En ég tel að hún flytji fremur til Íslands. Þar er betra að búa,“ sagði Karl Gústaf.
Aftonbladet fjallar um þá gagnrýni sem komið hefur fram á konunginn í kjölfar viðtalsins. Þeir sem gagnrýnt hafa Karl Gústaf velta fyrir sér hvað hann sé eiginlega að hugsa. Einn viðmælandi blaðsins sagði að það væri engu líkar en að konungurinn væri að reyna að koma á lýðveldi. Annar sagði að Svíar ættu engan þjóðhöfðingja, bara gangandi brandara.
Paul Ronge, fjölmiðlaráðgjafi, segir vissulega rétt að blaðamenn geti stundum spurt heimskulegra spurninga, en konungurinn þurfi hins vegar ekki að svara þeim frekar en hann vill. Ronge segir að það sé eins og konungurinn skilji ekki að besta leið hans til að ná til almennings sé í gegnum fjölmiðlana.
Jenny Alexandersson segir að Silvía drottning hafi alltaf brugðist vel við spurningum fjölmiðla. Konungurinn hafi hins vegar kosið að fara sínar eigin leiðir. Kímnigáfa konungsins sé frekar þurr. Það geti verið að brandarar hans falli í kramið innan fjölskyldunnar en þeir slái ekki í gegn meðal almennings.