Meira en 2/3 Frakka eru á móti loftárásum á Sýrland. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Le Figaro birti í dag. Francois Hollande, forseti Frakklands, styður árás á Sýrland til að hefna fyrir efnavopnaárás sem gerð var á úthverfi Damaskus 21. ágúst.
Samkvæmt könnuninni eru 68% Frakka andsnúin árásum á Sýrland. Andstaðan hefur aukist frá síðustu könnun. Í könnun sem gerð var 29. ágúst voru 45% á móti árás á Sýrland.
Hollande sagði í gær að hann myndi bíða eftir skýrslu eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem rannsakað hefur efnavopnaárásina, áður en hann tæki endanlega ákvörðun um árás á Sýrland.