Rúbínhringur með merki hakakross sem áður var í eigu nasistaforingjans Adolfs Hitlers verður boðinn upp í Bandaríkjunum á þriðjudaginn. Vonast uppboðshaldarar til þess að fá um 100 þúsund evrur fyrir hringinn.
Hringurinn var búinn til árið 1920 af þýska gullsmiðnum Karl Berthold sem gekk í nasistaflokkinn á þriðja áratug síðustu aldar.
Hringurinn er gullhúðaður og samanstóð upphaflega af 16 rúbínsteinum en einn vantar. Fyrstu myndirnar af Hitler með hringinn eru frá árinu 1937. Að sögn blaðamannsins Ron Latyne kom hringurinn til Bandaríkjanna eftir stríð og var hann í fórum ofursta í bandaríska hernum að nafni Joseph.
Hann var meðal þeirra hermanna sem leituðu í neðanjarðarbyrgi Hitlers í München í lokaáhlaupi bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni árið 1945. Joseph seldi hringinn til viðskiptamannsins Ray Bily á níunda áratugnum áður en hann komst í hendur safnarans William Blynn sem lést fyrir tveimur árum.
Dánarbúið er eigandi hringsins en uppboðshaldarinn Alexander Historical Auctions býður hringinn til sölu. Vonast er til þess að um 100 þúsund evrur fáist fyrir hringinn eða sem nemur rúmum 16 milljónum íslenskra króna. Uppboðið fer fram í Maryland á þriðjudag.