Utanríkisráðherra Bretlands, William Hague, hvetur þjóðir heims til þess að bregðast harkalega við notkun efnavopna í Sýrlandi. Segir Hague málið snúast um meira heldur en átökin í Sýrlandi.
Hague segir að þrátt fyrir að breska þingið hafi fellt tillögu um að taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn stjórn Bashar al-Assad þá styðji hann það að hernaði sé beitt til þess að koma í veg fyrir að slík eiturvopnaárás endurtaki sig.
Von er á utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, til Lundúna síðar í dag og mun hann eiga fund með Hague vegna Sýrlands.
Hague segir í viðtali við BBC-sjónvarpsstöðina í morgun að hann telji að heimurinn verði að berjast gegn notkun efnavopna. Það skapi meiri hættu að gera ekkert heldur en að gera árás.
Hann segir að bandarísk yfirvöld séu að leita eftir stuðningi við að gera afmarkaðar árásir svo hægt sé að koma í veg fyrir frekari árásir stjórnarhersins í Sýrlandi.
73% vilja að beðið verði eftir niðurstöðu SÞ
Í morgun var birt könnun sem sýnir að einungis fjórðungur Breta styður við fyrirhugaðar loftárásir Bandaríkjahers á Sýrland. Skiptir þar engu að Bretar eigi ekki aðild að árásinni.
47% Breta eru andvíg á árás á Sýrlandi. 73% aðspurðra í könnun YouGov sem birt er í Sunday Times í dag eru andvígir hernaðaraðgerðum áður en niðurstaða rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna liggur fyrir.