Súdönsk kona á yfir höfði sér að vera hýdd fyrir að neita að hylja hár sitt. Samkvæmt lögum í Súdan er öllum konum skylt að hylja hár sitt með slæðu (hijab).
En Amira Osman Hamed, 35 ára, neitar að hlýða lögunum og hefur verið ákærð fyrir brot á lögum um velsæmi. Verður réttað í máli hennar hinn 19. september nk.
Hamed nýtur stuðnings frá mannréttindasamtökum en löggjöfin í Súdan hefur verið hert mjög til muna frá því Omar al-Bashir, tók við embætti forseta eftir valdarán árið 1989.
„Þeir vilja að við lítum allar út eins og talibana-konur,“ segir Hamed í viðtali við AFP. Hún var stödd á lögreglustöð í úthverfi höfuðborgarinnar Khartoum þegar hún var spurð að því hvers lensk hún væri og hverrar trúar. „Ég er súdönsk. Ég er múslimi og ég ætla ekki að hylja hár mitt,“ svaraði Hamed.
Mál Hamed minnir á mál blaðakonunnar Lubna Ahmed al-Hussein sem var sektuð fyrir að ganga í síðbuxum á almannafæri. Hún neitaði hins vegar að greiða sektina og sat í fangelsi í einn dag þar til Blaðamannafélagið í Súdan greiddi sektina fyrir hennar hönd. Konurnar sem voru með al-Hussein þegar hún var handtekin voru hins vegar hýddar fyrir að hafa verið í buxum á almannafæri.