Cameron tekst ekki að semja við ESB

Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands.
Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, mun ekki takast að semja um breytta stöðu Breta innan Evrópusambandsins þar sem önnur ríki sambandsins eiga eftir að koma í veg fyrir það.

Þetta hefur Reuters-fréttaveitan eftir Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, en hann kemur úr röðum Frjálslyndra demókrata sem mynda núverandi samsteypustjórn landsins með breska Íhaldsflokknum sem Cameron fer fyrir. Cable lét ummælin falla á fundi í fjármálahverfi Lundúnaborgar.

Forsætisráðherrann hefur lýst þeim áformum sínum að semja við Evrópusambandið um að endurheimta ýmis völd frá stofnunum sambandsins sem Bretar hafa framselt til þeirra á liðnum árum og áratugum. Meðal annars í sjávarútvegi.

Cameron hefur heitið því að í kjölfar slíkra viðræðna verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um veruna í Evrópusambandinu árið 2017 að því gefnu að Íhaldsflokkurinn vinni næstu þingkosningar sem fyrirhugaðar eru 2015.

Cable sagði ennfremur að í stað þess að reyna að endurheimta völd frá Evrópusambandinu ætti Bretland að beita sér fyrir því að endurbætur væru gerðar á sambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert