Dómstóll í bænum Lons-le-Saunier í austurhluta Frakklands dæmdi í dag svínabú til þess að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum skaðabætur vegna þess að starfsmaðurinn hefði orðið heyrnarlaus á því að þurfa sífellt að hlusta á hrín svínanna sem hann hafði eftirlit með.
Haft er eftir starfsmanninum fyrrverandi, Serge Personeni, í franska dagblaðinu Le Figaro að starfið sem hann sinnti hafi þýtt að hann hafi stöðugt þurft að hlusta á hávaða og læti frá svínunum átta klukkustundir á dag, sjö daga vikunnar. Hann starfaði hjá svíabúinu frá 2001-2008 og hafði á þeim tíma eftirlit með um 4 þúsund svínum.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Personeni hefði ekki búið við viðunandi starfsskilyrði en hávaðinn frá svínum hefði farið allt upp í 133 decibel. Upphæð skaðabótanna verður ákveðin síðar þegar Personeni hefur gengist undir læknisskoðun í tengslum við þá ákvörðun.