Dómstóll í Svíþjóð hefur komist að þeirri niðurstöðu að 65 ára gamall karlmaður, sem stundaði sjálfsfróun við stöðuvatn í nágrenni Stokkhólms, hafi ekki gerst sekur um kynferðisbrot þar sem framferðinu hafi ekki verið beint að neinum ákveðnum einstaklingi. Maðurinn var því sýknaður.
Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.se að atvikið hafi átt sér stað 6. júní síðastliðinn við Drevviken-stöðuvatnið skammt frá sænsku höfuðborginni. Maðurinn hafi afklæðst og byrjað að fróa sér. Hann var í kjölfarið kærður fyrir kynferðisbrot.
Haft er eftir saksóknaranum Olof Vrethammar að ekki standi til að áfrýja niðurstöðunni. „Til þess að þetta teljist glæpsamlegt athæfi þarf því að hafa verið beint að einum eða fleiri einstaklingum. Ég tel að niðurstaða dómstólsins sé skynsamleg.“