Bandaríkjamenn og Rússar hafa náð samkomulagi um áætlun sem felur í sér að stjórnvöld í Sýrlandi hafa eina viku til að upplýsa um efnavopn sín og í kjölfarið afhenda þau til alþjóðlegra eftirlitsmanna. Samkomulagið nýtur stuðnings Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
John F. Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að ef Sýrlendingar standi ekki við samkomulagið og áætlunina geti það haft alvarlegar afleiðingar. Kerry segir að í samkomulaginu felist að Sýrlendingar veiti óheftan aðgang að geymslustöðvum efnavopna sinna og stefnt sé að því að engin efnavopn verði í Sýrlandi um mitt næsta ár.