„Dauðadómur leysir engan vanda“

„Fórnarlamb þessara manna fær ekki líf sitt aftur þótt þeirra sé tekið og dauðadómur leysir engan vanda þegar kemur að nauðgunum í Indlandi. Til þess þarf að mennta fólk, hefja allsherjar forvarnarátak,“ segja indversku réttindasamtökin Avaaz um dauðadóm yfir fjórum mönnum sem kveðinn var upp í gær.

Sex menn nauðguðu og myrtu 23 ára námskonu í strætisvagni í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, í desember í fyrra. Árásin á ungu konuna vakti mikla reiði víðsvegar um heim, einkum þó í heimalandi hennar þar sem fjölmenn mótmæli voru haldin víða um landið þar sem ofbeldi gegn konum var mótmælt harðlega.

Eftir árásina var lögum breytt í Indlandi varðandi kynferðisbrot og er nú heimilt að dæma menn til dauða fyrir ofbeldi gagnvart konum. Almenningur krafðist þess að mennirnir yrðu dæmdir til dauða.

Einn mannanna var nýverið dæmdur fyrir unglingadómstól þar sem hann var sautján ára þegar árásin var gerð. Annar hengdi sig í fangaklefa sínum og fjórir voru svo í gær dæmdir til dauða.

„Sýnið enga miskunn, sýnið enga miskunn“ var forsíðufyrirsögn á dagblaðinu Hindustan Times í morgun og á forsíðu Times of India: „Dauðadómur fjögurra fyrir bleyðulegan, djöfullegan og hrottafenginn glæp“. Með fylgdu svo myndir af mönnunum fjórum, Vinay Sharma, Akshay Thakur, Pawan Gupta, og Mukesh Singh. Í sömu blöðum var því hins vegar velt upp hvort dómurinn myndi yfirleitt hafa einhver áhrif á öryggi kvenna í landinu.

Samtökin Avaaz eru viss um að dómar sem þessir hafi ekki þau áhrif. Þau lýstu yfir vonbrigðum sínum og hvöttu stjórnvöld í Indlandi til að fara aðrar leiðir í baráttu sinni gegn faraldri nauðgana í landinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert