Tveir vegfarendur urðu fyrir skoti þegar lögreglumenn í New York hófu skothríð á grunaðan mann á Times Square í New York í gærkvöldi.
Maðurinn sem lögreglan var á eftir stóð á gatnamótum á miðju torginu og reyndi að henda sér fyrir bíla. Hann leit út fyrir að vera í miklu ójafnvægi og virtist ásetningur hans standa til þess að láta keyra á sig.
Lögreglumenn reyndu að handtaka hann, en maðurinn lék á lögregluna með því að setja höndina í vasann og draga hana aftur út, þannig að hann virtist vera með byssu.
Skutu lögreglumenn þá á manninn, en hittu ekki. Eitt skotið fór í hnéð á 54 ára gamalli konu en annað í rasskinnina á 35 ára gamalli konu.
Maðurinn var síðar handtekinn eftir að hafa verið gefið raflost með rafbyssu.