Lögreglan í Washington í Bandaríkjunum segir að vopnaður maður, sem er grunaður um aðild að skotárás á flotastöð í borginni í dag, hafi verið felldur. Grunur leikur á að tveir aðrir byssumenn leiki enn lausum hala. Margir féllu í árásinni á flotastöðinni í dag að sögn lögreglustjórans í Washington.
„Ein skytta, sem við teljum að tengist málinu, er látin,“ sagði lögreglustjórinn Cathy Lanier.
„Það sem við höfum mestar áhyggjur af þessa stundina er að mögulega eru tvær aðrar skyttur á ferðinni sem við vitum ekki hvar eru,“ bætti Lanier við.
Árásin átti sér stað í Washington Navy Yard í höfuðborg Bandaríkjanna. Lögreglan greindi frá því að margir hefðu fallið í skotárásum. A.m.k. fjórir, þar af einn lögreglumaður, hafa særst.
Lögreglumenn fóru inn í skrifstofubyggingu í leit að árásarmanni eftir að skothvellir heyrðust kl. 8:20 að staðartíma í morgun (kl. 13:20 að íslenskum tíma).
Lögreglan skaut einn árásarmannanna til bana og nú leitar lögreglan að tveimur mönnum til viðbótar.
ABC News í Bandaríkjunum segir að maðurinn sem lögreglan felldi í dag hafi verið fimmtugur fyrrverandi starfsmaður flotastöðvarinnar.