Ótvírætt að saríngas var notað

Árásin átti sér stað í úthverfi Damaskus 21. ágúst sl. …
Árásin átti sér stað í úthverfi Damaskus 21. ágúst sl. og í henni féllu 1.429. AFP

Vopnaeftirlitsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna segjast hafa undir höndum ótvíræðar sannanir um að taugagasið sarín hafi verið notað í sprengjuvörpuárás sem átti sér stað í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í skýrslu sem eftirlitsmennirnir hafa sent frá sér. Þar segir ennfremur að efnavopn, sem eru á lista yfir bönnuð vopn, hafi verið notuð í frekar stórum stíl í átökum sem hafa geisað í Sýrlandi undanfarna 30 mánuði. 

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að ekki sé nefnt hver beri ábyrgð á árásinni. 

Bandaríkjastjórn heldur því fram að ríkisstjórn Sýrlands beri ábyrgð á efnavopnaárásinni og hótaði að gera árásir á skotmörk í landinu í refsingarskyni. Rússar mótmæltu og að lokum sammæltust Rússar og Bandaríkjamenn um að réttast væri að krefja Sýrlendinga um að afhenda öll efnavopn. 

Þau ríki sem eiga sæti í öryggisráði SÞ vinna nú að gerð ályktunar í málinu. 

Vopnaeftirlitsmennirnir höfðu áður greint frá því að þeir væru að rannsaka 14 meintar efnavopnaárásir sem eru sagðar hafa átt sér stað í Sýrlandi frá því í september 2011. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka