Lögreglan í Boston heiðraði í gær heimilislausan mann, Glen James, fyrir að hafa í fyrra sumar afhent lögreglunni bakpoka sem innihélt meira en 42 þúsund bandaríkjadali sem hann fann á víðavangi. James varð vitni að því þegar ungur maður skildi óvart bakpokann eftir, en í bakpokanum voru 2400 dalir í reiðufé og ferðaávísanir að andvirði meira en 40 þúsund dala.
James segir trú sína vera ástæðan fyrir því að hann tók ekki peningana sjálfur. „Guð hefur alltaf komið vel fram við mig. Jafnvel þótt ég þyrfti á þessum peningum að halda, gæti ég aldrei tekið þá sjálfur.“
Margir hafa dáðst af heiðarleika James og sett hefur verið á laggirnar vefsíða þar sem fólk getur stutt James fjárhagslega. Alls hafa safnast um 22 þúsund dalir á innan við sólarhring. Ein kona sem styrkti James skrifaði á síðuna: „Þessi maður veitir mér aftur trúna á mannkyninu.“