Verslunarmiðstöðin breyttist í vígvöll

Kona flýr með barn sitt út úr verslunarmiðstöðinn í dag.
Kona flýr með barn sitt út úr verslunarmiðstöðinn í dag. Skjáskot af Sky

Sprengjur sprungu fyrir utan. Árásarmenn með grímur fyrir andlitinu þustu inn vopnaðir rifflum og hófu skothríð. Mikil skelfing greip um sig í dag í verslunarmiðstöðinni í Naríóbi sem laðar daglega að ríka Keníamenn og útlendinga sem búa þar eða eru á ferðalagi.

Þegar árásin hófst um hádegi í dag var í fyrstu talið að um vopnað rán væri að ræða því í verslunarmiðstöðinni Westgate eru margar lúxusvöruverslanir og oft auðugir viðskiptavinir. En fljótlega kom í ljós að árásin var þaulskipulögð og síðdegis varð svo ljóst að sómalíski hryðjuverkahópurinn Shabab stóð fyrir henni. Í yfirlýsingu frá hópnum segir að með árásinni sé verið að mótmæla afskiptum keníska hersins í Sómalíu. Þar eru nú um 4.000 hermenn frá Kenía að berjast við íslamska öfgamenn og hafa gert það allt frá árinu 2011.

Þúsundir manna koma í Westgate á hverjum degi og var árásin gerð á háannatíma. Verslunarmiðstöðin hefur frá því hún var opnuð árið 2007 verið tákn um þann efnahagslega uppgang sem á sér stað í Kenía.

Bandarísk yfirvöld hafa lengi varað við því að verslunarmiðstöðvar, m.a. Westgate, gætu orðið skotmörk hryðjuverkahópa. Hættan var ekki síst talin vegna þess að Ísraelar reka og eiga þar margar verslanir og kaffihús.

Margir sjónarvottar hafa í kvöld sagt að árásarmennirnir hafi skotið þá sem ekki voru múslímar. Létu þeir þá m.a. sanna stöðu sína með því að segja eitthvað á arabísku. 

Barist af hörku við Afríkubandalagið

Shabab-hópurinn er mjög virkur í Sómalíu. Þar stendur hann fyrir sjálfsmorðsárásum og aftökum og starfar í tengslum við Al-Qaeda. Her Afríkubandalagsins hefur náð að þvinga þá út úr flestum stærstu bæjum Sómalíu og tekist hefur að fella nokkra af leiðtogum þeirra. En undanfarið hefur hópurinn staðið fyrir árásum á óbreytta borgara, m.a. í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú. 

Ljóst er að 39 manns hafa þegar látist í árásinni í verslunarmiðstöðinni, þeirra á meðal börn. Um 150 hafa særst. Margir þeirra liggja þungt haldndir á sjúkrahúsi.

Forseti Kenía, Uhuru Kenyatta, er einn þeirra sem misstu ættingja í árásinni í dag. „Við höfum áður komist yfir hryðjuverkaárásir og við munum gera það aftur,“ sagði forsetinn.

Nú undir kvöld, rúmum hálfum sólarhring eftir að árásin hófst, var enn ekki búið að yfirbuga árásarmennina sem halda hópi fólks í gíslingu í verslunarmiðstöðinni. Hins vegar er búið að umkringja þá.

Kona faldi sig inni í loftræstikerfi verslunarmiðstöðvarinnar.
Kona faldi sig inni í loftræstikerfi verslunarmiðstöðvarinnar. AFP
Margir þurftu að fela sig inni í verslunarmiðstöðinni í marga …
Margir þurftu að fela sig inni í verslunarmiðstöðinni í marga klukkutíma áður en þeir gátu yfirgefið hana. AFP
Sérsveitarmaður á göngum verslunarmiðstöðvarinnar.
Sérsveitarmaður á göngum verslunarmiðstöðvarinnar. AFP
Fólk felur sig fyrir árásarmönnunum..
Fólk felur sig fyrir árásarmönnunum.. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert